Stefán Erlendsson
Gunnar Örn: „Myndlistin er andlegt svið …“
Þegar ég réði mig til starfa við Laugalandsskóla í Holtum undir lok tíunda áratugar
síðustu aldar vakti það strax athygli mína að fjöldi listaverka prýddi húsakynni skólans og
menningarmiðstöðvarinnar á staðnum. Þarna blöstu við myndir eftir virta samtímamálara
á borð við Örlyg Sigurðsson, Erró, Braga Ásgeirsson, Gunnar Örn Gunnarsson og Vigni
Jóhannsson. Ég undraðist þetta og var tjáð að flest verkanna væru þarna til komin fyrir
atbeina Gunnars Arnar sem hefði gefið skólanum mörg þeirra en stofnunin auk þess keypt
af honum eitt eða tvö verk.
Á þessum tíma vissi ég fátt um Gunnar Örn annað en að hann hafði verið stórt
nafn í íslenskri myndlist. Innansveitarfólk sem ég þekkti talaði um hann sem listamanninn
í sveitinni og hvatti mig til að heimsækja hann á vinnustofu hans að Kambi. Þar hófust
kynni okkar.
Í fyrstu heimsókn minni sýndi Gunnar mér aragrúa myndverka frá ólíkum tímabilum,
mörg hver býsna eftirtektarverð að mér fannst. Þar á meðal voru verk sem hann kallaði
hugleiðslumyndir og héngu nokkrar slíkar uppi heima hjá honum. Fákunnandi um
myndlist spurði ég Gunnar hvers vegna hann hefði málað þessar myndir í abstrakt stíl. Ég
mála bara fígúratívt, svaraði hann að bragði.
Að nokkrum mánuðum liðnum heimsótti ég Gunnar öðru sinni á vinnustofuna. Þá
festi ég kaup á tveimur verkum. Þetta voru fremur litlar þrykkimyndir, unnar með
blandaðri tækni. Mónótýpur kallaði hann þær. Teiknað er með penna ofan í þrykkið á
annarri myndinni, sem er af kynjaverum og andlitum í mismunandi stellingum, og
pappírinn í henni jafnframt meðhöndlaður þannig að hann líti út fyrir að vera lúinn og
velktur. Málað er með olíulit ofan í þrykkið á hinni, en hún sýnir æxlunarfæri karlmanns,
sæðisfrumur og egg – eða jafnvel sálir á sveimi í endurholdgunarferli. Ég var ekki fjáðari
en svo að ég varð að taka lán í Búnaðarbankanum á Hellu til að fjármagna kaupin á
myndunum.
Upp frá þessu hittumst við Gunnar Örn endrum og sinnum á förnum vegi á meðan ég
bjó á Laugalandi og tókum þá jafnan tal saman. Eitt skiptið sagði hann mér undan og ofan
af misjöfnum viðskiptum sínum við listaverkasala, nýríkt peningafólk og
fjármálafyrirtæki. Ég var þá á förum aftur til Reykjavíkur og til stóð að ég kenndi
námskeið í viðskiptasiðfræði við Háskóla Íslands. Þættir í frásögn Gunnars slógu mig
sem skólabókardæmi á því sviði, einkum hvað varðar mikilvægan greinarmun laga og
siðferðis og togstreituna þar á milli. Hann féllst á að veita mér „formlegt“ viðtal um efnið
sem ég gæti síðan moðað úr í reynslusögu. Hálfu ári seinna gerði ég mér ferð austur fyrir
fjall og að Kambi með diktafón í farteskinu og rakti úr honum garnirnar.
***
Eins og gefur að skilja snerist bróðurpartur viðtalsins um reynslu Gunnars Arnar af
viðskiptahlið listamannsstarfsins. En fleira forvitnilegt bar á góma. Í tilsvörum Gunnars
birtist til dæmis grundvallarlífssýn hans, sem var fyrst og fremst andleg, sprottin af
reynslu listamannsins. Eins kemur glöggt fram hvernig hann upplifði árekstra milli þessa
andlega heims listarinnar og veraldlegs heims viðskipta, peninga og brauðstrits. Loks
minnist hann á breytt viðhorf til myndlistar og stöðu greinarinnar í deiglu samtímans.
Ég gerði mér sérstaklega mat úr eftirmálum sýningar sem Gunnar Örn stóð fyrir í
sameiginlegum matsal tveggja fjármálafyrirtækja, hvort þeim hafi borið að kaupa verk af
Gunnari samkvæmt óformlegri venju þar að lútandi eða greiða honum leigu fyrir
sýningarverkin jafnvel þótt ekki hefði verið samið um slíkt með formlegum hætti áður en
sýningin var sett upp. Í huga Gunnars mætast þarna tveir „gjörólíkir“ og ósamstæðir
heimar. Annars vegar er viðskiptaheimurinn, „blákaldur í staðreyndum,“ þar sem „allt er
njörvað í reglur.“ Hins vegar er „svona einhver ljóðrænn heimur“ sem hann lifir og
hrærist í. Þeir sem eru í „sköpunarvinnu,“ eins og hann, hugsi „allt öðruvísi en harðir
bisnessmenn.“ Finnst óþarfi „þegar myndlist er annars vegar að hafa allt skriflegt sem
sagt er eða ýjað er að.“ Menn eigi að geta „talað sig saman og gengið frá hlutunum.“
Þótt líta megi á „myndverk sem hlut þá geri ég það ekki og skynja það ekki
þannig,“ segir Gunnar. „Ég skynja myndverk ekki sem hlut sem er eins og hver annar
hlutur til sölu þó að hann sé seldur. Þetta er í mínum augum andlegt svið og andleg
hugsun sem er verið að hengja upp,“ bætir hann við. „En maður verður að fá sinn hlut til
að geta velt sér áfram og lifað í þessu samfélagi sem er ekki hægt að lifa í án peninga.
Það svekkir mann náttúrlega að það skuli ekki vera tekið tillit til þessarar hliðar.“ Að hans
mati vantar ekki formreglur heldur gott siðferði. „Gott siðferði á að nægja.“
„En þetta er kannski svolítið sérviska mín,“ viðurkennir Gunnar. Um leið undirstrikar
hann að tíðarandinn hafi breyst frá því hann hóf feril sinn sem myndlistarmaður um 1970.
Þá handsöluðu menn munnlegt samkomulag um útborgun og mánaðarlegar greiðslur fyrir
kaup á myndverkum og það stóðst. Í dag sé vissara að tryggja sig með því að gera ávallt
skriflegan samning um kaup og sölu eða önnur viðskipti. „Ég sakna þess að handsalið
skuli ekki duga lengur, þessa mannlega þar sem traust ríkir milli manna í samskiptum.“
Að sögn Gunnars Arnar hefur ýmislegt fleira breyst á þeim aldarþriðjungi sem hann
hefur unnið við myndlist. Til dæmis er „hugarfarið mikið orðið þannig“ að það sé „bara
hluti af neyslunni að hafa myndlist,“ segir hann. „Og jafnvel að hún eigi sér alveg eins
stað bara í fjölmiðlum.“ Maður þurfi ekki að fá hana heim til sín. „Það viðhorf er farið að
læðast inn núna að þú sért bara neytandi og í einhverju fjöri í fjölmiðlum, af menningu,
og fylgist vel með þar og jafnvel að fólk nenni ekki að fara á sýningar,“ hvað þá að það
vilji hafa myndlist „uppi á veggjunum hjá sér.“
„Og gott og vel. Þetta er kannski bara eðlilegt viðhorf út frá einhverju sem er að
ske í okkar samfélagi eða nútíma,“ heldur Gunnar áfram. „En það er svolítið fátæklegt.“
Hann fari oft úr sveitinni til Reykjavíkur á sýningar og það heyri til undantekninga ef
hann er ekki „einn í sölunum.“ Segist ekki fara á opnanir því að hann „ætli að sjá
myndverkin“ og fari þá yfirleitt í miðri viku. „Það er alveg ótrúlega lítið um fólk á
sýningum miðað við það sem var hér áður fyrr …“
„Ég er orðinn svo gamall að ég hef upplifað alveg ótrúlega breidd á þessu sviði,
bara á 35 árum. Hraðinn er orðinn svo mikill núna að neyslan er svona instant, hún er
eiginlega bara instant mötuð og hlutirnir mega ekki taka of langan tíma …“ Á hinn bóginn
leggur Gunnar áherslu á að þótt „hlutirnir“ hafi verið öðruvísi „hér áður fyrr“ sé ekki „þar
með sagt að þeir eigi að vera það“ áfram um aldur og ævi. „Tilvera okkar er síbreytileg,
hver dagur er nýr og … býður upp á nýja hugsun. En manni finnst þó vera svolítið
einkennileg þessi tilhneiging hvernig allt er á floti. Og hvað fólk er svona á móti því að
fara djúpt ofan í hlutina.“
***
Viðtalið við Gunnar Örn var tekið seint í febrúar 2002. Þá var ég nýlega byrjaður að
kenna námskeiðið í viðskiptasiðfræði við Háskóla Íslands en hafði að aðalstarfi
dönskukennslu í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Á svokölluðum þemadögum í síðarnefnda
skólanum snemma vors þetta sama ár, sem voru helgaðir hundrað ára fæðingarafmæli
Halldórs Laxness, rak á fjörur mínar safn ljóða eftir Nóbelsskáldið myndskreytt með
verkum íslenskra myndlistarmanna undir heitinu Unglingurinn í skóginum. Eitt verkanna
er eftir Gunnar Örn.
Það er mér ennþá í fersku minni þegar ég fletti bókinni í gegn og sá ljósmynd af þessu
verki í fyrsta skipti. Ég hreinlega féll í stafi. Hugsaði varla um annað í marga daga á eftir.
Í minningunni varð mér heldur ekki svefnsamt á nóttunni. Loks stóðst ég ekki lengur
mátið og hringdi í Gunnar og spurði: Hvar er þessi mynd niðurkomin? Hún er hérna á
vinnustofunni hjá mér, svaraði hann um hæl. Er hún föl? spyr ég. Það má ræða það,
svarar hann þá. Hálfum mánuði seinna tók ég hús á Gunnari á vinnustofu hans. Þar hafði
hann stillt verkinu upp á trönur til að sýna mér það. Ég kiknaði í hnjáliðunum frammi
fyrir því. Fannst það ennþá stórfenglegra í verunni en á ljósmynd.
Ég átti ekki túskilding með gati frekar en fyrri daginn og hafði því ekki efni á að kaupa
myndina. Það gerir ekkert til, sagði Gunnar. Þú borgar hana bara þegar þú getur. Og við
handsöluðum „viðskiptin.“ Ég bað hann um að geyma myndina þangað til ég gæti byrjað
að borga af henni. Tveimur árum seinna hringdi hann í mig og spurði hvort ég hefði
ennþá áhuga á myndinni. Ég svaraði hálfhneykslaður að við hefðum handsalað kaupin og
það stæði að sjálfsögðu hvað mig áhrærði ekki síður en hann. Gunnar kom síðan með
myndina á Framnesveginn þar sem ég bjó og afhenti mér hana með þeim orðum að núna
væri myndin komin heim.
Gunnari hafði verið falið að vinna verk í tengslum við eitt ljóðanna í bókinni, „Þú
kysstir mína hönd.“ Ljóðið er um forboðnar ástir, þá hyldýpisgjá sem getur verið á milli
fólks af ólíkum stigum samfélagsins og sálarangist þess sem situr eftir í sárum, er svikinn
í tryggðum. Þetta er stórt olíumálverk. Ég spurði Gunnar hver væru tengslin á milli
myndefnisins og ljóðsins, hvers vegna hann hefði málað myndina svona en ekki einhvern
veginn öðruvísi. Hann sagðist hafa verið innblásinn af ljóðinu, sem hann las margsinnis
og hugsaði mikið um, og myndefnið, þessi tilteknu form og litir hefðu einfaldlega komið
til sín, flætt úr penslinum og birst á striganum.
Myndin er fremur dökk, en samt einnig máluð með sterkum litum, fjólubláum,
appelsínugulum og ljósbláum, og nokkrir myndfletir hvítir eða ómálaðir, sem lýsir hana
upp. Grunnformið er hjartalaga á svarbrúnum fleti. Tvö höfuð liggja saman, annað
skáhallt upp til vinstri á vinstri helmingi grunnformsins, en hitt efst fyrir miðju og vísar
skáhallt niður til vinstri. Höfuðin snertast og hvíla í einhvers konar poka sem er þegar
betur er að gáð þriðja og stærsta höfuðið sem sést aðeins í prófíl og myndar neðri hluta
grunnformsins og helming þess. Þetta er portrett af Nóbelsskáldinu sjálfu, þríhöfða, og er
hvert höfuð frá sínu aldursskeiði – frá því Laxness er rúmlega tvítugur, hálffertugur og
vel á níræðisaldri.
Eins og öll góð myndverk er myndin í jafnvægi, það er ekkert sem truflar áhorfandann.
Sumir skynja sársauka í myndinni, hryggð eða dapurleika.
***
Þegar hér er komið sögu fór ég venja komur mínar oftar á sýningar sem Gunnar Örn stóð
að í Gallerí Kambi, gamla bæjarhúsinu sem hann hafði innréttað til sýningarhalds fyrir
innlenda og erlenda myndlistarmenn, og sýningar á hans eigin verkum þar og annars
staðar. Þannig kynntist ég Gunnari smátt og smátt betur. Við ræddum iðulega saman við
þessi tækifæri, um alla heima og geima, og það fór jafnan vel á með okkur. Fyrsta
umræðuefnið var að sjálfsögðu myndlistin og sýningarverkin hverju sinni.
Eins og fram er komið var lífssýn Gunnars fyrst og fremst andleg, mótuð af
reynslu listamannsins. Um tíma lagði hann einnig upp í andlega vegferð að kanna óræðar
víddir tilverunnar sem hann fann síðan farveg í listsköpun sinni. Í þeirri leit var hann
sannur og trúr sjálfum sér. Það er því ekki að undra að honum hafi fundist ég vera „svo
mikið í hugsuninni,“ eins og hann orðaði það við mig í fyllstu hreinskilni, upptekinn af
hugtakalegri hugsun um veraldlega hluti á borð við samfélag og stjórnmál, þrátt fyrir
einlægan áhuga minn á myndlist.
En Gunnar var ekki bara andlega sinnaður, hann var líka náttúrubarn. Fannst
mikilvægt að vernda ósnortna náttúru, hún byggi í senn yfir dulmagni og krafti og væri
óþrjótandi uppspretta hugmynda og listsköpunar. Hann var í þessum skilningi veraldlega
þenkjandi, pólitískur í víðasta skilningi, fylgdist með og tók afstöðu. Var gagnrýninn á
menn og málefni. Bjó yfir sterkri réttlætiskennd, var jafnaðarmaður. Vildi að allir menn
byggju við aðstæður sem gerðu þeim kleift að njóta kosta sinna, þroska með sér
hæfileikann til að skapa og njóta.
Frásögn Gunnars Arnar af ýmsum viðskiptum sem hann hafði staðið í sem
myndlistarmaður ber jafnframt með sér að hann var heiðarlegur og réttsýnn, vildi „frekar
treysta og sýta en tortryggja og sýta“ (Kirito). Brenndi sig. Fann fyrir því. Sárnaði. En
hélt sínu striki. Treysti áfram, kannski ekki öllum, en þeim sem virtust áreiðanlegir. Og
það var alltaf notalegt að hitta Gunnar. Hann var einlægur og gaf af sér í samskiptum, dró
gjarnan fram óvæntar eða óvenjulega hliðar á umræðuefninu og lagði gott til málanna.
Gunnar opnaði til dæmis á vissan hátt fyrir mér hið fígúratíva í náttúrunni. Hann var
alla tíð upptekinn af þeirri hlið náttúrunnar, sá lifandi form og fígúrur í öllu landslagi, og
málaði á tímabili landslagsmyndir í þeim dúr. Við sjáum þetta að sjálfsögðu öll, en
mismikið og hvert með sínum augum. Ég fór að horfa meira, skoða betur, og fyrr en varði
sá ég andlit, tröll og forynjur hvert sem litið var. Ekki bara í náttúrunni heldur einnig í
listaverkum, hvort heldur þau eru fígúratív eða abstrakt, og ýmsum öðrum hlutum.
Þetta breytti náttúruupplifun minni í hestaferðum sem ég hef farið á vegum Eldhesta
undanfarin tuttugu ár. Það er óviðjafnanlegt að upplifa náttúruna af hestbaki. Þegar
hesturinn sér um að fóta sig í hrjóstrugu landslagi getur knapinn horft í kringum sig og
gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn þar sem náttúran umhverfist í kynjaverur, andlit
birtist á hamravegg eða í hraundranga, þurs ygglir brýnnar, fugl situr á steini,
álfadrottning sendir dulúðugt bros innan úr berginu. Gunnar var hestamaður og eitthvað
þessu líkt hefur hann vafalaust séð á ferðum sínum.
***
Það er bjartur og sólríkur dagur. Þetta er sumarið 2007. Ég er staddur að Kambi í Holtum
þar sem Gunnar Örn hélt sína síðustu málverkasýningu. Hann hafði þá nýlokið við að
stækka vinnustofuna, bætti við hana umtalsverðu sýningarrými til viðbótar við það sem
fyrir var í Gallerí Kambi – eina alþjóðlega galleríinu í sveit á Íslandi þar sem virtir
erlendir myndlistarmenn sýndu verk sín.
Fólk drífur að í stríðum straumum. Vinir og vandamenn, sveitungar, félagar úr
stétt myndlistarmanna, og aðrir unnendur myndlistar aka í hlað og stíga út úr bílum sínum
með bros á vör. Gunnar Örn leikur á als oddi. Hann hefur endurnýjað sig sem
myndlistarmaður, skipt um kúrs í listsköpun sinni enn eina ferðina. Sýningin er afrakstur
þess. Listamaðurinn er umvafinn fjölskyldu og vinum og lífið brosir við honum. Þetta er
uppskeruhátíð og gleðin ein ríkir, ofar hverri kröfu.
Ég er mættur snemma og gef mér góðan tíma til að skoða sýninguna og spjalla við
vini og kunningja, og svo auðvitað Gunnar sjálfan. Eyði reyndar öllu síðdeginu að
Kambi. Annað er ekki hægt. Auk þess er ég staðráðinn í að kaupa eitt verk. Fer nokkrum
sinnum aftur í gegnum alla sýninguna og geri loks upp hug minn. Vind mér síðan að
Gunnari og segi við hann að mig langi í þessa tilteknu mynd og spyr hvort nokkuð sé því
til fyrirstöðu að við handsölum kaupin á henni með svipuðum skilmálum og fyrr. Gunnar
jánkar því og bætir svo við: Þetta er vel valið hjá þér, ég gef þessari mynd góða einkunn.
Um er að ræða meðalstórt olíumálverk í sterkum jarðlitum. Grunnflöturinn er
flöskugrænn. Fremst á myndfletinum vinstra megin er efri hlutinn af nöktum karlmanni,
að mestu hvítmálaður. Höfuðið gráleitt og tómt. Til vinstri við það er eins og sálin sé að
yfirgefa líkamann, að því gefnu að bústaður hennar sé í höfðinu. Á brjóstinu er eins konar
mynstur eða útflúr sem myndar augnsvipi eða hálf-andlit. Gæti táknað tilfinningar eða
tilfinningalíf. Hægra megin á myndinni er frístandandi veggur, aðallega í mosagrænum
lit, sem minnkar inn í myndina og skapar þrívíða ásýnd. Fyrir endanum glittir í hvítan
gaflvegg. Gólfið er brúnt. Ofan til sést í flöskugrænan grunnflötinn.
Verkið heitir Tómleiki. Aðspurður segist Gunnar hafa verið að reyna að fanga þá
tilfinningu að maður sé eins og gestur í eigin tilveru, kannist ekki lengur við sig í sínu
nánasta umhverfi. Ég er sjálfur staddur í hálfgerðu tómarúmi og myndin höfðar
meðal annars til mín vegna þess. Eins finnst mér að þetta gæti verið ég sjálfur á
myndinni. Vaxtarlagið er ekkert ósvipað.
***
Þegar við Gunnar Örn handsöluðum myndina og kvöddumst á þessum fallega
sólskinsdegi óraði mig ekki fyrir því að ég sæi hann aldrei aftur. Eftir það töluðum við
aðeins saman í síma. Átta mánuðum seinna var Gunnar allur.