Stokkseyri er kyrrlátt og fallegt sjávarþorp við Suðurströnd landsins. Þar búa 535 manns. Engin útgerð er lengur stunduð á Stokkseyri en þar er ennþá svolítil fiskvinnsla. Þorpið er í rúmlega 60 km fjarlægð (50 mín. akstursfæri) frá Reykjavík og því stutt í allar helstu náttúruperlur Suðurlands s.s. Þingvelli, Laugarvatn, Gullfoss, Geysi og Seljalandsfoss.

Stokkseyri er þekkt fyrir fjölbreytt fuglalíf og sérstæða og fallega fjöru þar sem skiptast á hraunklappir, straumrastir og lón með þykkum skeljasandsbotni sem skapar ákjósanleg lífsskilyrði fyrir skelfisk og kuðung.

Í þorpinu er blómlegt menningar- og listastarf. Smiðjur, vinnustofur, gallerí og söfn eru víða auk staðbundins handverks. Á Veiðisafninu má sjá uppstoppuð dýr frá öllum heimshornum, sögur af draugum og forynjum eru sagðar í máli og myndum á Draugasafninu, og Álfa- trölla- og norðurljósasafnið „opnar dyr“ að heimi álfa, trölla og huldufólks sem er einnig ríkur þáttur í menningararfleifð okkar.

Þuríðarbúð var endurreist til minningar um Þuríði Einarsdóttur (1777-1863) og horfna starfshætti en hún var lengst af formaður á bát sem var einstakt fyrir konur á þeim tíma. Um er að ræða „tilgátuhús“ sem gefur góða innsýn í aðstæður vermanna á 19. öld. Fyrir austan Stokkseyri er Knarrarósviti, fyrsti vitinn sem byggður var úr járnbentri steinsteypu á Íslandi (1938-1939), og hæsta bygging Suðurlands. Skammt frá vitanum er Rjómabúið á Baugsstöðum, eina rjómabúið sem stendur eftir með öllum búnaði og upprunalegum tækjum.

Hið margrómaða veitingahús Fjöruborðið er á Stokkseyri, aðeins steinsnar frá Kvöldstjörnunni, og Skálinn (sjoppa þar sem hægt er kaupa brýnustu nauðsynjar) er einnig í göngufæri. Margvísleg þjónusta er í boði á Selfossi sem er í 10 mínútna akstursfæri (13 km) frá Stokkseyri. Í hjarta þorpsins er lítil og notaleg sundlaug með rennibraut, vaðlaug og heitum pottum. Sundlaugin er opin alla daga vikunnar á sumrin og aðgangur er ókeypis fyrir 18 ára og yngri. Laugargestir geta átt von á því að boðið sé upp á kaffi eða ávaxtasafa þar sem þeir láta þreytuna líða úr sér í heita pottinum.

Margvísleg önnur dægradvöl er einnig innan seilingar. Til dæmis eru nokkrir merktir göngustígar í þorpinu og næsta nágrenni; boðið er upp á kajakróðrarferðir á Löngudæl fyrir alla aldurshópa og óháð getu; hægt er að renna fyrir silung í Hraunsá; hestaleigur eru skammt frá; og fyrir þá sem unna náttúru og dýralífi eru kindur, hestar og jafnvel stundum kýr, á beit rétt fyrir utan húsdyrnar og fuglafriðlandið í Flóa er ekki langt undan.


 

Skálinnhttps://www.foodyas.com/IS/Stokkseyri/1165912053576448/Sk%C3%A1linn-Stokkseyri

Kayakferðirhttps://www.kajak.is/?lang=en

Selfosshttps://www.south.is/en/inspiration/towns/selfoss

Fjöruborðiðhttps://www.fjorubordid.is

Veiðisafniðhttps://www.hunting.is